Innlent

Fleiri styðja Bjarna í formanninn

Bjarni Benediktsson nýtur stuðnings tæp sextíu prósent Sjálfstæðismanna til að verða næsti formaður flokksins samkvæmt nýrri skoðanakönnun Vísis, Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Kristján Þór Júlíusson hefur þó svipað fylgi og hann á landsbyggðinni.

Sjálfstæðismenn kjósa sér nýjan formann á landsfundi flokksins um helgina. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins vilja fjörtíu og sjö prósent landsmanna að Bjarni verði næsti formaður flokksins en tæp þrjátíu og sex prósent að Kristján Þór Júlíusson taki við embættinu. Rúm sautján prósent vilja einhvern annan en Bjarna og Kristján.

Stuðningurinn við Bjarna er mun meiri meðal Sjálfstæðismanna eingöngu. Tæp fimmtíu og átta prósent þeirra vilja Bjarna sem næsta formann en tæp þrjátíu prósent Kristján. Tæp þrettán prósent Sjálfstæðismanna vilja hvorugan.

Bjarni hefur nokkuð meiri stuðning en Kristján á höfuðborgarsvæðinu en tæpur helmingur höfuðborgarbúa vill Bjarna. Á landsbyggðinni er stuðningurinn mjög svipaður við þá báða en tæp fjörtíu og fjögurprósent vilja Bjarna en rúm fjörtíu og tvö prósent Kristján.

Niðurstaðan byggist á könnun sem gerð var í gær. Hringt var í átta hundruð einstaklinga af landinu öllu en rúmur helmingur tók afstöðu til spurningarinnar.

Vert er að hafa í huga að innan við vika er síðan að Kristján lýsti yfir formannsframboði en þá hafði verið vitað frá því í byrjun febrúar að Bjarni sæktist eftir formennskunni.

Það er í höndum landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að kjósa næsta formann en þeir eru um nítján hundruð og skiptast nokkuð jafnt á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Kosningin fer fram á sunnudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×