Viðskipti erlent

Alcoa féll um 6,6% eftir að Deutche Bank mælti með sölu

Hlutir í álrisanum Alcoa hafa fallið um 6,6% á Wall Street í dag en markaðurinn þar hefur verið í niðursveiflu frá opnuninni. Lækkunin kom í kjölfar þess að greining Deutche Bank mælti með sölu á hlutum Alcoa en félagið á Fjarðarál á Reyðarfirði.

Fyrr hafði Deutche Bank mælt með því að fjárfestar héldu hlutum sínum í alrisanum. Nú hafa menn áhyggjur af afkomu Alcoa sem birtir uppgjör sitt fyrir síðasta ársfjórðung eftir lokunin á Wall Street í dag.

Sem kunnugt er af fréttum tilkynnti Alco í síðustu viku að um 13% starfsmanna félagsins um allan heim yrði sagt upp á árinu en um tæplega 14.000 starfsmenn er að ræða.

Þá er einnig ætlunin að draga verulega úr álframleiðslu með lokun álvera, þar af verður tveimur álverum lokað í Rússlandi. Samingum við 1.700 verktaka verður sagt upp, ráðningarstopp sett á og laun fryst í félaginu.

Þessi áform hafa engin áhrif á starfsemi Alcoa á Íslandi. Auk Fjarðaráls hefur félagið áhuga á að byggja nýtt álver á Bakka við Húsavík.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×