Þorkell Máni Pétursson, þjálfari Stjörnunnar, var eðlilega í skýjunum eftir öruggan 1-4 sigur gegn KR á KR-velli í kvöld og hrósaði liði sínu fyrir góða frammistöðu, sér í lagi í síðari hálfleik.
„Mér fannst við reyndar vera allt of mikið á hælunum í fyrri hálfleik en seinni hálfleikur var mjög góður hjá okkur. Þá fannst mér í raun bara vera eitt lið á vellinum og stelpurnar voru frábærar. Það voru þarna leikmenn sem hlupu bara eins og enginn væri morgundagurinn og við vorum að spila mjög vel fram á við," segir Þorkell Máni og notaði tækifærið einnig til þess að tileinka sigurinn frábærri umgjörð sem meistaraflokkráð félagsins hefur skapað fyrir lið sitt.
Þorkell Máni segir toppbaráttuna vissulega spennandi og jafna en ætlar ekki að tapa sér í gleðinni og tekur bara eitt skref í einu með lið sitt.
„Það tala allir bara um tvö lið í toppbaráttunni og við viljum bara leyfa þeim liðum að vera í þeirri umræðu og þau kunna vel við sig þar. Við tökum hins vegar bara eitt skref í einu því það er erfitt prógram framundan og svo sjáum við bara til hvað setur," segir Þorkell Máni að lokum.