Alexandre Pato er fullur tilhlökkunar fyrir komandi tímabili hjá AC Milan. Nú er Kaka horfinn á braut og býst Pato þá við að fá að taka við hlutvekinu sem Kaka hafði í liðinu, milli miðju og sóknar.
Pato var mikið notaður sem sóknarmaður á síðasta tímabili þar sem hans aðalstaða er sú sama og Kaka spilar.
„Ef ég fæ að spila mína stöðu og næ fram meiri stöðugleika í minn leik þá mun ég verða mun betri en ég var á síðasta tímabili," sagði Pato sem er sérlega spenntur fyrir því að leika í Meistaradeildinni.
„Þegar ég gekk til liðs við AC Milan náði ég bara tveimur Evrópuleikjum áður en liðið féll úr leik. Svo á síðasta tímabili komumst við ekki í keppnina. Við erum ákafir í að gera góða hluti í Meistaradeildinni og stefnum að sjálfsögðu á að fara alla leið í keppninni."