Skoðun

Framtíðin

Þorsteinn Pálsson skrifar
Þótt hugmyndafræðilegur ágreiningur sé í reynd minni en látið er í veðri vaka er hann eigi að síður til staðar. Hann kemur til að mynda fram í ólíkum hugmyndum til stóriðju. Þar greinir menn á um náttúruvernd en þó öllu meir um hlutverk erlendra fjárfesta í íslenskum þjóðarbúskap.

Sú ólýðræðislega staða er uppi á teningnum að VG er eins og Þrándur í Götu þess að vilji meirihluta Alþingis fái notið sín á þessu sviði. Það gæti dregið endurreisnina á langinn. Þjóðin er að tapa á því að breiðara pólitískt samstarf fær ekki notið sín á þessu sviði.

Annað dæmi um hugmyndafræðilegan ágreining lýtur að skattamálum. Þar ræður hugmyndafræði VG ferðinni. Hún mun leiða til þess að óhjákvæmileg ný tekjuöflun mun draga úr verðmætasköpun og hagvexti. Vera má að þarna endurspeglist fremur gamlar kreddur en bjargföst hugmyndafræði. Einu gildir. Þessi veruleiki seinkar endurbata í þjóðarbúskapnum og veikir vörnina fyrir norræna velferðarkerfið.

Af þessu má draga lærdóm. Hann er fyrst og fremst sá að óskynsamlegt er að ala á hugmyndafræðilegum ágreiningi sem er ekki til staðar í þeim mæli sem haldið er fram. Að þessu þurfa forystumenn beggja megin víglínunnar að gæta. Sundurlyndið er skaðlegt við ríkjandi aðstæður.

Kjarni málsins er sá að hugmyndafræðilegar forsendur eru fyrir breiðari pólitískri samvinnu. Hún mun skila meiri árangri. Hugmyndafræði framtíðarinnar er mikilvægari en skotgrafir fortíðarinnar.

 


Tengdar fréttir

Samstarf foreldra og skóla skilar árangri

Vika 43 – vímuvarnarvikan beinir nú sjónum að kannabisneyslu. Foreldrar fá þau skilaboð frá sérfræðingum í vímuvörnum að hægt sé að tala um kannabis sem vímuefni unga fólksins og mikilvægt sé að leggjast í forvarnir til að bjarga komandi kynslóðum.




Skoðun

Sjá meira


×