Innlent

Þrefalt fleiri vilja Jóhönnu frekar en Ingibjörgu

Jóhanna Sigurðardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Rúmlega þrefalt fleiri vilja að að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra leiði Samfylkinguna í næstu Alþingiskosningum, en að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður flokksins geri það, samkvæmt nýrri könnun Stöðvar tvö og Fréttablaðsins.

Rösklega 60 prósent völdu Jóhönnu en innan við 20 prósent Ingibjörgu Sólrúnu. Munurinn er enn meiri ef aðeins eru skoðuð svör Samfylkingarfólks. Þar vilja rétt tæp 70 prósent að Jóhanna leiði flokkinn en en liðlega 16 prósent að Ingibjörg Sólrún geri það. Jón Baldvin Hannibalsson kom svo í þriðja sæti með með tæp 13 prósent.

Ef borin er saman afstaða landsbyggðarfólks og höfuðborgarbúa, er niðurstaðan álíka, um það bil þrisvar sinnum fleiri vilja Jóhönnu. Rúm sjö prósent segjast vilja einhvern annan en þau þrjú og nefndu flestir Dag B. Eggertsson, einhvern annan en í boði var, og svo Össur Skarphéðinsson.

Hringt var í 800 manns og spurt: Hver telur þú að eigi að leiða Samfylkinguna í næstu ksoningum? Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og landshlutum. Liðlega 60 prósent svarenda tóku afstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×