Viðskipti erlent

Fjármálakreppan á Íslandi kemur við kaunin á Dönum

Danskt efnahagslíf finnur verulega fyrir fjármálakeppunni á Íslandi. Danir telja að útflutningur þeirra til Íslands muni minnka um 17% í ár og þar með munu tekjur upp á hálfan milljarð danskra kr. eða um tæpa 11 milljarða kr.

Í umfjöllun um málið á vefsíðunni business.dk segir að fyrir utan tapið í útflutningnum megi svo nefna minnkandi umsvif danskra fyrirtækja á Íslandi.

Hið stærsta þeirra er Ístak sem er í eigu verktakafyrirtækisins Phil og Sön. Þar á bæ reikna menn með að umsvifin á Íslandi muni dragast saman um hálfan milljarð kr. sökum kreppunnar. Sú tala er ekki inn í töpuðum útflutningstekjum þar sem Ístak er skráð á Íslandi.

Rætt er við Sören Langvad forstjóra Phil og Sön um málið sem segir að rekstur Ístak sé um 15% af heildarveltu fyrirtækisins. Og að áætlað sé að veltan á Íslandi muni minnka um helming í ár.

"Við vonum að við getum boðið íslenskum starfsmönnum okkar vinnu í staðinn í einhverjum af þeim tuttugu löndum sem við störfum í," segir Langvad. "En ef starfsmennirnir geta ekki af einhverjum ástæðum flutt frá Íslandi er ekki mikið sem við getum gert."

Einnig er rætt við Claus Winther markaðsstjóra Idealcombi, sem framleiðir glugga og fleira og hefur flutt töluvert af vörum til Íslands. Winther segir að þeir telji sig heppna ef útflutningur þeirra til Íslands minnki ekki um meir en 70% í ár miðað við árið í fyrra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×