Einn stjórnenda AIG, trygginga- og fjárfestingafélagsins, varði ákvörðun félagsins um að greiða starfsmönnum 165 milljónir bandaríkjadala í bónusgreiðslur. Hann sagði að greiðslurnar hefðu verið nauðsynlegar til þess að halda starfsfólki í vinnu. Maðurinn, sem heitir Stephen L. Blake og er mannauðsstjóri hjá AIG sagði jafnframt að bónusgreiðslurnar hefðu verið ákveðnar í fyrra, áður en stjórnvöld ákváðu að veita fyrirtækinu ríkisaðstoð upp á 165 milljarða bandaríkjadala.
Andrew Cuomo, saksóknari í New York fylki, sagði fyrr í vikunni að þeir fimmtán starfsmenn sem fengu hæstu bónusana frá bandaríska trygginga- og fjárfestingafélaginu AIG hafi samþykkt að skila þeim til baka. Um er að ræða 30 milljónir bandaríkjadala af þeim 165 sem félagið greiddi.
