Lífið

Britney-eftirherman á sér íslenska fortíð

Lorna vann á Goldfinger.
Lorna vann á Goldfinger.

Frétt Daily Mail, sem íslenskir fjölmiðlar endursögðu samviskusamlega, af Lornu Bliss, breskri konu á þrítugsaldri sem hefur varið þrjátíu milljónum króna í að líkjast Britney Spears, vakti athygli í vikunni.

Það má vera til marks um hversu heimurinn er lítill að Lorna þessi er sannkallaður Íslandsvinur og dvaldi hér á landi um hríð og starfaði þá sem súludansmey á Goldfinger. „Hún var að dansa hjá okkur í tvö ár og bjó þá hér á Íslandi. Fjögur ár síðan hún var hérna," segir Ásgeir Þór Davíðsson eða Geiri á Goldfinger.

Hann lýsir Lornu Bliss sem mjög minnisstæðri, skemmtilegri og líflegri stúlku. „Já, við urðum varir við að hún var með Britney-áráttu. Alveg „húkkt" á því. Mér fannst hún nú ekkert lík Britney þá en þrjátíu milljónum seinna... þá hafa kannski orðið einhverjar breytingar," hlær Geiri.

Súlukóngurinn vill þó ekki meina að Lorna Bliss sé sú frægasta sem hefur starfað sem strípidansmey hjá honum. „Nei, ég get nú alveg sagt þér það að ég hef verið með margar frægar. Hún Lorna hefur samt leikið í fullt af bláum myndum og gekk þá undir nafninu Lacey Maguire," segir Geiri sem hefur miklum mun nákvæmari heimildir um fortíð þessarar þekktu konu en Daily Mail sem hélt því fram að hún hefði einkum starfað sem eftirherma Britneyar og troðið upp sem slík í afmælisveislum og næturklúbbum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×