Framsóknarmenn héldu aukakjördæmaþing í öllum kjördæmum landsins í dag. Á þeim voru teknar ákvarðanir um hvernig staðið verður að vali á framboðslista flokksins vegna þingkosninganna í vor. Póstkosning verður í tveimur kjördæmum og prófkjör í öðru.
Suðurkjördæmi - póstkosning
Á aukakjördæmisþingi framsóknarmanna í Suðurkjördæmi var samþykkt tillaga þess efnis að val í sex efstu sætin á framboðslista framsóknarmanna í kjördæminu vegna kosninganna í vor skuli fram með póstkosningu allra félagsmanna í kjördæminu. Úrslit verða kynnt á kjördæmaþingi laugardaginn 7. mars.
Norðausturkjördæmi - kjördæmaþing
Framsóknarmenn í Norðausturkjördæmi ákváðu að kosið verði um 1. til 8. sæti á framboðslista flokksins á kjördæmisþingi sem haldið verður 15. mars.
Atkvæðisrétt á því þingi munu allir flokksbundnir framsóknarmenn í kjördæminu hafa í stað þess að valdir séu fulltrúar miðað við tiltekinn félagsmannafjölda hvers aðildarfélags, líkt og gerist á reglulegum kjördæmisþingum.
Suðvesturkjördæmi - prófkjör
Efstu fimm sætin á framboðslisti Framsóknarflokksins í Kraganum verða valin í lokuðu prófkjöri 7. mars. Þátttaka í prófkjörinu er heimil öllum fullgildum flokksmönnum í Framsóknarflokknum 2. mars sem eiga munu kosningarétt í Suðvesturkjördæmi í væntanlegum þingkosningum.
Niðurstaðan verður bindandi fyrir fimm efstu sæti framboðslistans, þó að teknu tilliti til ákvæða um jafnrétti kynjanna.
Reykjavíkurkjördæmin - uppstilling
Framsóknarmenn í Reykjavík áváðu í dag að forvalsnefnd, sem kosin var í dag, geri tillögur að framboðslistum flokksins í Reykjavík, sem lagðar verði fyrir annað kjördæmisþing, 28. febrúa.
Á því þingi munu fulltrúar flokksmanna í Reykjavík kjósa um tillögu forvalsnefndar, og aðrar tillögur sem fram kunna að koma, að skipan í hvert einstakt sæti á listum flokksins í Reykjavík norður og Reykjavík suður.
Norðvesturkjördæmi - póstkosning
Á aukakjördæmisþingi framsóknarmanna í dag var ákveðið að við val í fjögur efstu sætin á framboðslista flokksins fari fram póstkosning allra félagsmanna í kjördæminu.
Atkvæðaseðlar verða sendir út 3. mars og talning fer fram föstudaginn 13. mars.