Viðskipti erlent

ConocoPhillips hefur áhuga á Jan Mayen svæðinu

Bandaríski olíurisinn ConocoPhillips hefur áhuga á olíuleit og vinnslu á Jan Mayen svæðinu. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðunni offshore.no þar sem greint er frá árlegri ráðstefnu Samtaka norska olíuiðnaðarins (OLF) sem haldin var í síðustu viku.

Meðal þeirra sem fluttu erindi á ráðstefnu OLF var James J. Milva stjórnarformaður ConocoPhillips en það er þriðja stærsta orkufyrirtæki Bandaríkjanna og það stærsta í olíu- og gasvinnslu í Alaska.

Milva segir að ConocoPhillips sé nú að leita að nýjum risaolíusvæðum í líkingu við Ekofisk. Fyrirtækið hafi mestan áhuga á að leita að olíu á nýjum svæðum á norska landgrunninu eins og Lófóten og Vesterålen.

„Jan Mayen er líka áhugavert fyrir ConocoPhillips," segir Milva en eins og kunnugt er af fréttum, m.a. hér á síðunni, er mikil pólitísk andstaða í Noregi fyrir því að heimila leit við Lófóten og Vesterålen.

Fréttin á offshore.no sýnir að alþjóðlegir olíurisar vita af Jan Mayen, þar með væntanlega einnig Drekasvæðinu, en hingað til hafa norsk olíufyrirtæki einkum haft áhuga á olíuleit á þeim slóðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×