Snæfell hefur náð 1-0 forystu gegn Njarðvík í einvígi liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deildarinnar eftir öruggan 84-71 sigur á Njarðvíkingum suður með sjó í dag.
Hólmarar höfðu frumkvæðið frá fyrstu mínútu í leiknum og spiluðu grimman varnarleik. Njarðvíkingar náðu ekki að nýta langskotin sín og segja má að Damon Bailey hafi verið eini maðurinn sem náði sér almennilega á strik.
Bailey skoraði 29 stig og hirti 10 fráköst fyrir Njarðvík í dag, Jóhann Ólafsson skoraði 14 en Brenton Birmingham náði sér aldrei á strik og skoraði aðeins 6 stig.
Justin Shouse skoraði 20 stig og gaf 7 stoðsendingar fyrir Snæfell, Slobodan Subasic skoraði 19 stig og hirti 9 fráköst, Magni Hafsteinsson skoraði 13 stig og Hlynur Bæringsson skoraði 7 stig, hirti 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
Næsti leikur liðanna er í Stykkishólmi og þar geta heimamenn klárað dæmið með sigri.