Fótbolti

Presturinn fékk að sjá rautt

Ekki voru allir jafn ánægðir og þessi séra á klerkamótinu í ár
Ekki voru allir jafn ánægðir og þessi séra á klerkamótinu í ár AFP

Óvenjuleg uppákoma átti sér stað á Klerkamótinu svokallaða sem orðið er árlegur viðburður í Vatikaninu í Róm. Þetta er knattspyrnumót guðfræðinema og presta frá öllum heimshornum.

Einn afríski presturinn úr háskólaliði Páls postula missti stjórn á skapi sínu í einum leiknum og kastaði treyju sinni í andlitið á dómaranum. Hann fékk að líta rauða spjaldið fyrir uppátækið sem þykir minna á tilþrif Antonio Cassano hjá Sampdoria viku áður - en hann fékk háa sekt og fimm leikja bann fyrir.

Liði Páls postula var vikið úr mótinu vegna tilþrifa prestsins, sem kom frá Burkina Faso í Afríku.

Klerkamótið - eða HM Presta - var haldið í fyrsta sinn í fyrra og var viðleitni Vatikansins og ítalskra íþróttayfirvalda til að reyna að fegra ímynd knattspyrnunnar í landinu í kjölfar spillingarhneykslisins sem reið yfir Ítalíu fyrir nokkrum misserum og aukins ofbeldis í kring um knattspyrnuleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×