Fótbolti

Ranieri nýtur trausts

Elvar Geir Magnússon skrifar
Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri.

Jean-Claude Blanc, stjórnarmaður hjá Juventus, segir að þjálfarinn Claudio Ranieri hafi fullan stuðning hjá stjórn félagsins. Framtíð Ranieri hefur verið talin í lausu lofti vegna dapurs gengis hjá Juventus að undanförnu.

Margir töldu að 2-1 tapið fyrir Palermo á heimavelli um síðustu helgi hefði verið síðasta naglinn í kistu Ranieri.

„Við munum ekki skipta um þjálfara þar sem við höfum fulla trú á Ranieri. Cobolli Gigli, forseti, sagði það um helgina og ég ítreka það," sagði Blanc við ítalska sjónvarpið.

„Ranieri var ráðinn til að stjórna liðinu til langs tíma og það verkefni heldur áfram. Við munum setjast niður með honum og starfsliði hans til að leita lausna á ástandinu. Við viljum að Juventus sýni það sama og liðið gerði í enda ágúst," sagði Blanc.

Juventus hefur gengið illa að skora mörk en sú ákvörðun að kaupa Christian Poulsen frekar en leikstjórnanda á miðjuna hefur verið harðlega gagnrýnd af ítölskum fjölmiðlum.

„Við sjáum alls ekki eftir því að hafa keypt Poulsen. Við íhuguðum kaupin á honum mjög vandlega og ég er viss um að hann muni sanna í næstu leikjum að hann hefur þau gæði sem við þurfum á miðjuna," sagði Blanc.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×