Fótbolti

Girtu niðrum sig til að trufla markvörðinn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sigurmark Catania gegn Torino.
Sigurmark Catania gegn Torino.

Í gegnum tíðina hafa menn reynt ýmis brögð til að skora mörk. Leikmenn Catania notuðu sérkennilega aðferð þegar þeir náðu að tryggja sér sigur gegn Torino á sunnudaginn.

Catania fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Þrír leikmenn Catania sem stóðu við varnarvegg mótherjana girtu stuttbuxurnar niður á hné svo markvörður Torino, Matteo Sereni, ætti erfiðara með að sjá skotið.

Þessi aðferð heppnaðist frábærlega og úr spyrnunni skoraði Guiseppe Mascara sigurmarkið í leiknum 3-2. Þessi aðferð kom beint af æfingasvæðinu hjá Catania en hún er þó mjög umdeild.

Paoli Casarin, fyrrum yfirmaður dómaramála á Ítalíu, segir að með réttu hefði dómarinn átt að láta endurtaka aukaspyrnuna. Hann segir að þessi aðferð til að hindra yfirsýn markvarðarins flokkist undir óíþróttamannslega framkomu.

Walter Zenga, fyrrum markvörður ítalska landsliðsins, er þjálfari Catania og fékk hann þessa hugmynd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×