Bandaríkjaþing hefur samþykkt að gangast í ábyrgð fyrir 25 milljarða dollara lántöku stóru bílaframleiðendanna í Detroit. Þetta er í fyrsta skiptið síðan 1980, þegar bandaríkjastjórn ábyrgðist 675 milljóna dollara lán Chrysler, sem bandarísk stjórnvöld veita bílaframleiðendum fjárstuðning með þessum hætti.
Talsmenn bílaframleiðenda leggja þó áherslu á að ekki megi líta á þessa aðstoð sem "björgunaraðgerð", hvað þá að hún sé sambærileg aðgerðum ríkisins vegna vandræða fjármálakerfisins.
Talsmenn bílaframleiðenda og þingmenn á bandaríkjaþingi hafa lýst því yfir að ríkisábyrgðin muni koma sér vel við fjárfestingar í þróun og framleiðslu umhverfisvænni bíla.