Bretinn Lewis Hamilton náði besta tíma í fyrstu æfingu keppnisliða á nýju Formúlu 1 brautinni í Singapúr í dag. Efstu menn í stigamótinu röðuðu sér í næstu sæti á eftir.
Mótsvæðið er mjög tilkomumikið í Singapúr og flóðlýsingni setti skemmtilegan svip á aðfarir ökumanna. Mark Webber fékk þann vafasama heiður að skemma bíl sinn fyrstur manna. Hann keyrði á varnarvegg þar sem ökumenn keyra undir áhorfendastúku, sem er nýmæli í Formúlu 1.
Margir ökumenn voru í vandræðum í síðustu beygju brautarinnar og Sebastian Bourdais telur að fjarlægja verði málningu af brautinni í þessari beygju.
Tímarnir: 1. Lewis Hamilton 1.45.518, Felipe Massa + 0.080, 3. Kimi Raikkönen + 0.443, 4. Heikki Kovalainen + 0.945, 5. Robert Kubica + 1.100.