Varðskipið Óðinn verður nú hluti af safninu. Skipið liggur við sérstaka bryggju safnsins og gefst gestum kostur á að skoða skipið undir leiðsögn. Óðinn á sér merka sögu og tók þátt í öllum þorskastríðunum á síðustu öld og fór að auki í fjölmarga björgunarleiðangra.
Einnig er dráttarbáturinn Magni við safnbryggjuna en hann er fyrsta stálskipið sem smíðað var á Íslandi í Stálsmiðjunni í Reykjavíkurhöfn. Sjóminjasafnið er staðsett í gamla frystihúsi Bæjarútgerðar Reykjavíkur (BÚR). Húsnæði Víkurinnar á sér því áhugaverða sögu sem fiskvinnslustöð og frystihús.