Bakþankar

Núna

Guðmundur Steingrímsson skrifar

Sá erkisnillingur Barack Obama fékk mig til þess að fá undarlegt ofnæmi í augun - vil ég meina - um miðja nótt nú í byrjun nóvember, þannig að ég táraðist óhóflega. Þetta gerðist rétt í þann mund þegar Obama gekk ásamt konu sinni og börnum inn á sviðið í Chicago, nýkjörinn forseti frammi fyrir tugþúsundum stuðningsmanna sinna.

SVO byrjaði hann að tala. Og ég hugsaði: Þessi maður er fyrsti þjóðarleiðtoginn sem ég heyri segja eitthvað af viti í langan tíma. Mikið afskaplega var það kærkomið. Þarna stóð maður sem blés mér von í brjóst. Hann talaði skýrt. Hann sagði hluti.

Á meðan Obama talar um "the urgency of now" eða mikilvægi þess að nýta augnablikið, gera mikilvæga hluti núna, ekki síðar - því það er engin stund eins og núna - hafa vissir íslenskir leiðtogar á lykilstöðum gert marga brjálaða á undanförnum vikum með eilífum yfirlýsingum um að þetta og hitt sé ekki „tímabært", að ekki eigi að þvæla umræðuna með „óskyldum málum", að ekki sé hægt að segja frá hlutum „að svo stöddu". Í kjölfarið á slíku tali skil ég vel að landsmenn horfi hugsandi á eggin í ísskápnum og íhugi notagildi þeirra í lýðræðislegu samhengi.

ÉG skil illa hvernig sá flokkur í ríkisstjórn sem lagt hefur fram skýrar kröfur - um faglegan Seðlabanka, um nýjan gjaldmiðil og inngöngu í bandalag sjálfstæðra ríkja í Evrópu - getur unað við það stundinni lengur að þessi stefnumið og önnur (eins og afnám eftirlaunafrumvarpsins) séu sífellt afgreidd af samstarfsflokknum sem ótímabært hjal. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stofnað nefnd og ætlar að ræða eitt af þessum málum í jan/feb. Gott og vel. Það er framför. En hér er ferðast á hraða skriðjökuls.

ÁSTANDIÐ er krítískt. Krónan er dauð. Eggin smella á Alþingishúsinu. Það verður að hlusta á kall tímans. Kröfur núsins. Þá lexíu eigum við að hafa lært, eftir að endalaus frestun aðgerða setti heilt bankakerfi á hausinn. Við hlustuðum ekki. Og nú gerir núið kröfu um ákvarðanir, um stefnu, upplýsingar og síðast en ekki síst: Að stærsta hagsmunamál þjóðarinnar - framtíðargjaldmiðillinn og aðild að ESB - sé sett upp á borðið og um það kosið.

NÚIÐ er ofsafengin skessa, algjör frekja, sem trompast ef maður hlustar ekki á hana. Þessa dagana sé ég ekki betur en að hún sé gjörsamlega snælduvitlaus.








×