AC Milan varð af mikilvægum stigum í ítölsku A-deildinni í kvöld þegar liðið steinlá 3-1 fyrir Palermo á Sikiley.
Brasilíumaðurinn Ronaldinho fór illa að ráði sínu á 27. mínútu þegar hann brenndi af vítaspyrnu og mistókst að koma gestunum yfir.
Markalaust var í hálfleik en Fabrizio Miccoli kom heimamönnum yfir á 50. mínútu, Edinson Cavani bætti við öðru níu mínútum síðar og Simplicio innsiglaði svo sigur Palermo á 80. mínútu.
Skömmu síðar minnkaði Ronaldinho muninn úr annari vítaspyrnu en það var lítil sárabót fyrir Milan, sem missti af tækifæri til að halda í við granna sína í Inter sem hafa nú sex stiga forskot á toppnum.
Inter hefur 33 stig, AC Milan og Juventus hafa 27 stig og Napoli hefur 24 stig í fjórða sætinu - einu stigi meira en Lazio og Fiorentina.