Enski boltinn

Ramos bindur vonir við UEFA-bikarkeppnina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Juande Ramos, stjóri Tottenham.
Juande Ramos, stjóri Tottenham. Nordic Photos / Getty Images

Juande Ramos segir að gott gengi í UEFA-bikarkeppninni gæti verið sú lyftistöng sem Tottenham þurfi í ensku úrvalsdeildinni.

Tottenham mætir Udinese í fyrstu umferð riðlakeppni UEFA-bikarkeppninnar í kvöld en liðið er í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins tvö stig eftir átta leiki.

„Báðar keppnir eru mikilvægar," sagði Ramos. „Í augnblikinu er UEFA-bikarkeppnin mikilvægari því næsti leikur okkar er í henni. Svo á morgun tekur úrvalsdeildin aftur við en hver einasti leikur er okkur gríðarlega mikilvægur."

Varnarmaðurinn Vedran Corluka getur ekki spilað með Tottenham í UEFA-bikarkeppninni þar sem hann lék með Manchester City í sömu keppni í haust.

Þá er Ledley King tæpur vegna meiðsla og getur varla spilað oftar en einu sinni í viku vegna meiðsla sinna.

„Vandamálið við UEFA-bikarkeppnina er að það er ekki hægt að nota Corluka og King. Við munum nota King á sunnudaginn ef það reynist mögulegt en hann þarf tíu daga til að jafna sig."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×