Körfubolti

Ég var aldrei í fýlu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Bæringsson, leikmaður Snæfells.
Hlynur Bæringsson, leikmaður Snæfells. Mynd/E. Stefán

Snæfellingarnir Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson hafa báðir gefið kost á sér í íslenska körfuboltalandsliðið.

Þeir ákváðu að gera það ekki síðastliðið sumar en hafa nú ákveðið að gefa kost á sér á ný. Sigurður Ingimundarson, landsliðsþjálfari, valdi þá báða í 23 manna æfingahóp landsliðsins.

„Ég var nú aldrei í fýlu," sagði Hlynur í samtali við Vísi. „Í fyrra sá ég mér ekki þann kost að vera með út af vinnutapi. En það verður breytt fyrirkomulag á æfingum landsliðsins í sumar og verður meira um æfingar um helgar. Mér líst því vel á þetta," sagði Sigurður. Hann verður líka í feðraorlofi í sumar sem gefur honum aukið svigrúm vegna vinnunnar.

Það er mikið framundan hjá landsliðinu í sumar en liðið keppir á móti á Írlandi þar sem meðal annars háskólalið Notre Dame mætir til þátttöku.

„Þetta eru bara einhverjir krakkar," sagði Hlynur í léttum dúr. „Þetta veðrur bara skítlétt."

Hann segir þó í fullri alvöru að það verði gaman að mæta liðinu og gæti vel verið að það innihaldi upprennandi NBA-stjörnu. „Annars hef ég bara ekki hugmynd um hvernig þetta lið verður."

Í haust hefst svo keppni í B-deild Evrópumótsins þar sem Ísland keppir um að vera meðal tveggja þjóða sem fá sæti í A-deildinni. Hlynur býst við hörkuleikjum þá.

„Þetta fer mikið eftir því hvernig Svartfellingar ákveða að koma inn í þetta mót. Þetta er nýtt landslið eftir aðskilnaðinn við Serbíu en það er alveg ljóst að þetta er ekki B-þjóð. Þeir eiga marga góða leikmenn, bæði í NBA-deildinni og í bestu liðum í Evrópu."

„Ég mun til að mynda mæta Nikola Pekovic sem leikur með Partizan Belgrad og er gríðarlega öflugur leikmaður. Mér finnst hann betri en margir í NBA-deildinni en hann var einfaldlega að drepa Meistaradeildina. Það verður gaman fyrir Íslendinga að sjá hann."

„Svo eru Danirnir alltaf erfiðir en ég held að við eigum ágæta möguleika í þessum riðli, sérstaklega á heimavelli. En það fer mikið eftir því hvernig Svartfellingar tækla þessa keppni, hvort þeir sendi sína bestu menn til þátttöku."

Ísland er í riðli með Dönum, Hollendingum, Svartfellingum og Austurríkismönnum.

Fyrsti leikurinn í riðlinum verður þann 10. september gegn Dönum á heimavelli og þremur dögum síðar mætir liðið Hollandi á útivelli.

Ísland mætir svo Svartfjallalandi á heimavelli þann 17. september og svo Austurríki á útivelli þann 20. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×