Í gær hófst keppni í bæði spænsku og ítölsku úrvalsdeildunum í knattspyrnu og er Jose Mourinho þegar búinn að tapa sínum fyrstu stigum með Inter.
Inter gerði 1-1 jafntefli við Sampdoria á útivelli. Zlatan Ibrahimovic kom Inter yfir á 33. mínútu en Gennaro Delvecchio jafnaði metin á 68. mínútu.
Luis Figo var í byrjunarliði Inter en hann var sagður á leið frá félaginu áður en Mourinho tók við stjórn liðsins.
Udinese tyllti sér hins vegar á topp deildarinnar með 3-1 sigri á Palermo. Antonio Di Natale skoraði tvö mörk fyrir Udinese í leiknum og Gökhan Inler eitt. Mark Bresciano skoraði mark Palermo.
Fyrstu umferðinni lýkur svo í dag en tveir leikir fóru einnig fram í spænsku úrvalsdeildinni í gær.
Valencia hóf tímabilið vel eftir hreint skelfilegt gengi á síðustu leiktíð. Liðið vann 3-0 sigur á Real Mallorca en David Villa, Mata og Vicente skoruðu mörk liðsins í gær.
Þá vann Espanyol 1-0 sigur á Valladolid með marki Luis Garcia.
Eiður Smári Guðjohnsen er í leikmannahópi Barcelona sem mætir Numancia á útivelli klukkan 17.00 í dag.
Spænski og ítalski boltinn af stað
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
