Náttúruauður Noregs Þorvaldur Gylfason skrifar 8. maí 2008 06:00 Norskum börnum er kennt, að Noregur hafi verið fátækastur Evrópulanda 1905, þegar Norðmenn slitu konungssambandinu við Svíþjóð og tóku sér fullt sjálfstæði. Það er þó ekki alveg rétt, því að til dæmis Finnar og Íslendingar bjuggu þá við krappari kjör en Norðmenn. Nú, hundrað árum síðar, standa Norðurlöndin fimm í einum hnapp, en Norðmenn þó fremstir. Þjóðartekjur á mann 2005 námu 32.000 til 35.000 dollurum á mann í Danmörku, Finnlandi, Íslandi og Svíþjóð og 42.000 dollurum í Noregi; hér er stuðzt við kaupmáttarkvarða, sem tekur mið af því, að verðlag er mishátt í ólíkum löndum. Norðmenn líta margir svo á, að náttúruauðlindir þeirra - fyrst timbur, síðan orka fossanna, loks olía og jarðgas - hafi á einni öld breytt Noregi úr fátæktarbæli í allsnægtareit. Er það rétt? Ég dreg það í efa. Finnar og Íslendingar voru hálfdrættingar á við Dani og Svía í efnahagslegu tilliti um aldamótin 1900, og nú standa þessar fjórir grannþjóðir svo að segja jafnfætis, án þess að sýnt sé, að Finnar og Íslendingar geti þakkað gjöfum náttúrunnar sérstaklega þennan góða árangur. Enn skýrara er dæmi Írlands og Bretlands. Írar voru mun fátækari en Bretar um 1900, og nú hafa Írar skotið Bretum aftur fyrir sig og eiga samt engar umtalsverðar náttúruauðlindir aðrar en ræktarland fátækra bænda. Bretar eiga olíulindir.Mannauðurinn skiptir mestuMannauðurinn er mikilvægasta undirstaða allra framfara. Norðmenn áttu alla tíð timbrið, fallvötnin og olíuna, en þeir þurftu vel menntað vinnuafl til að gera sér mat úr auðlindunum. Náttúruauðlindir, sem liggja ónýttar vegna menntunarskorts, eru minna en einskis virði (arðræningjar láta stundum greipar sópa, Kongó ber vitni). Mannauður án náttúruauðlinda er á hinn bóginn mikils virði eins og árangur Íra vitnar um og margra annarra þjóða, til dæmis Japana. Íslandsmið voru full af spriklandi fiski frá fyrstu tíð, en það var ekki fyrr en þjóðin kastaði af sér oki fákunnáttunnar, að forfeður okkar og mæður náðu að gera sér mat úr miðunum.Úr því að Norðmenn með alla sína olíu og allt sitt gas standa ekki nema feti framar en Danir, Íslendingar, Finnar og Svíar, hefur Norðmönnum þá mistekizt að ávaxta sitt pund? Ættu Norðmenn að réttu lagi að vera miklu ríkari en við hin? Um þetta er tvennt að segja. Í fyrsta lagi er forskot Norðmanna meira en tölurnar um tekjur á mann vitna um, því að Norðmenn komast af með minni vinnu en við hin. Norðmenn vinna að jafnaði 1.400 stundir á ári á móti 1.600 stundum í Danmörku og Svíþjóð, 1.750 í Finnlandi og 1.800 hér heima. Munurinn á þjóðartekjum á hverja vinnustund í Noregi og annars staðar um Norðurlönd er því meiri en munurinn á þjóðartekjum á mann, Norðmönnum í vil. Norðmenn hafa tekið út aukna velsæld ýmist í auknum vinnutekjum eða fleiri tómstundum.Í annan stað virðist líklegt, að Norðmenn hefðu getað náð svipuðum árangri með því að beina sífellt betur menntuðum mannafla í aðra farvegi, hefði auðlindanna ekki notið við. Þá hefðu Norðmenn vísast byggt upp hátæknifyrirtæki á borð við Bang&Olufsen, Volvo og Nokia líkt og Danir, Svíar og Finnar, en olíuauðurinn og hátt gengi norsku krónunnar af hans völdum stóðu í veginum.Réttar ákvarðanirGóð stjórn Norðmanna á olíuauðinum hefur vakið verðskuldaða athygli um allan heim. Norðmenn tóku réttar ákvarðanir: (a) þeir skilgreindu í öndverðu olíuna og jarðgasið í norskri landhelgi sem sameignarauðlind og beindu 80 prósentum af olíurentunni í almannasjóði til að tryggja eigandanum, norsku þjóðinni, réttmætan arð af eign sinni; (b) þeir settu lög og siðareglur til að tryggja hagnýtingu auðlindanna í almannaþágu til frambúðar og til að girða fyrir hættuna á, að sérdrægir hagsmunahópar seildust í auðlindirnar; (c) þeir stilltu sig um að veita miklu fé úr olíusjóðnum til daglegra þarfa til að halda verðbólgu í skefjum; og (d) þeir fluttu stjórn olíusjóðsins, sem heitir nú eftirlaunasjóður og er geymdur erlendis, frá fjármálaráðuneytinu til sjálfstæðs seðlabanka til að halda stjórnmálamönnum í hæfilegri fjarlægð frá olíufénu.Þegar búhyggindi Norðmanna í olíumálum eru athuguð, vekur það eftirtekt, hversu miklu miður þeim hefur gengið að stjórna fiskveiðum sínum. Ekkert af atriðunum fjórum að ofan á við um fiskveiðistjórnina í Noregi, ekki frekar en hér heima eða sunnar í álfunni. Norðmenn kusu að hefta hagkvæmni í útgerð með ríkisstuðningi og hömlum gegn stórrekstri til að efla atvinnu og tryggja búsetu í Norður-Noregi, öðrum þræði af ótta við Rússa handan við hornið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Norskum börnum er kennt, að Noregur hafi verið fátækastur Evrópulanda 1905, þegar Norðmenn slitu konungssambandinu við Svíþjóð og tóku sér fullt sjálfstæði. Það er þó ekki alveg rétt, því að til dæmis Finnar og Íslendingar bjuggu þá við krappari kjör en Norðmenn. Nú, hundrað árum síðar, standa Norðurlöndin fimm í einum hnapp, en Norðmenn þó fremstir. Þjóðartekjur á mann 2005 námu 32.000 til 35.000 dollurum á mann í Danmörku, Finnlandi, Íslandi og Svíþjóð og 42.000 dollurum í Noregi; hér er stuðzt við kaupmáttarkvarða, sem tekur mið af því, að verðlag er mishátt í ólíkum löndum. Norðmenn líta margir svo á, að náttúruauðlindir þeirra - fyrst timbur, síðan orka fossanna, loks olía og jarðgas - hafi á einni öld breytt Noregi úr fátæktarbæli í allsnægtareit. Er það rétt? Ég dreg það í efa. Finnar og Íslendingar voru hálfdrættingar á við Dani og Svía í efnahagslegu tilliti um aldamótin 1900, og nú standa þessar fjórir grannþjóðir svo að segja jafnfætis, án þess að sýnt sé, að Finnar og Íslendingar geti þakkað gjöfum náttúrunnar sérstaklega þennan góða árangur. Enn skýrara er dæmi Írlands og Bretlands. Írar voru mun fátækari en Bretar um 1900, og nú hafa Írar skotið Bretum aftur fyrir sig og eiga samt engar umtalsverðar náttúruauðlindir aðrar en ræktarland fátækra bænda. Bretar eiga olíulindir.Mannauðurinn skiptir mestuMannauðurinn er mikilvægasta undirstaða allra framfara. Norðmenn áttu alla tíð timbrið, fallvötnin og olíuna, en þeir þurftu vel menntað vinnuafl til að gera sér mat úr auðlindunum. Náttúruauðlindir, sem liggja ónýttar vegna menntunarskorts, eru minna en einskis virði (arðræningjar láta stundum greipar sópa, Kongó ber vitni). Mannauður án náttúruauðlinda er á hinn bóginn mikils virði eins og árangur Íra vitnar um og margra annarra þjóða, til dæmis Japana. Íslandsmið voru full af spriklandi fiski frá fyrstu tíð, en það var ekki fyrr en þjóðin kastaði af sér oki fákunnáttunnar, að forfeður okkar og mæður náðu að gera sér mat úr miðunum.Úr því að Norðmenn með alla sína olíu og allt sitt gas standa ekki nema feti framar en Danir, Íslendingar, Finnar og Svíar, hefur Norðmönnum þá mistekizt að ávaxta sitt pund? Ættu Norðmenn að réttu lagi að vera miklu ríkari en við hin? Um þetta er tvennt að segja. Í fyrsta lagi er forskot Norðmanna meira en tölurnar um tekjur á mann vitna um, því að Norðmenn komast af með minni vinnu en við hin. Norðmenn vinna að jafnaði 1.400 stundir á ári á móti 1.600 stundum í Danmörku og Svíþjóð, 1.750 í Finnlandi og 1.800 hér heima. Munurinn á þjóðartekjum á hverja vinnustund í Noregi og annars staðar um Norðurlönd er því meiri en munurinn á þjóðartekjum á mann, Norðmönnum í vil. Norðmenn hafa tekið út aukna velsæld ýmist í auknum vinnutekjum eða fleiri tómstundum.Í annan stað virðist líklegt, að Norðmenn hefðu getað náð svipuðum árangri með því að beina sífellt betur menntuðum mannafla í aðra farvegi, hefði auðlindanna ekki notið við. Þá hefðu Norðmenn vísast byggt upp hátæknifyrirtæki á borð við Bang&Olufsen, Volvo og Nokia líkt og Danir, Svíar og Finnar, en olíuauðurinn og hátt gengi norsku krónunnar af hans völdum stóðu í veginum.Réttar ákvarðanirGóð stjórn Norðmanna á olíuauðinum hefur vakið verðskuldaða athygli um allan heim. Norðmenn tóku réttar ákvarðanir: (a) þeir skilgreindu í öndverðu olíuna og jarðgasið í norskri landhelgi sem sameignarauðlind og beindu 80 prósentum af olíurentunni í almannasjóði til að tryggja eigandanum, norsku þjóðinni, réttmætan arð af eign sinni; (b) þeir settu lög og siðareglur til að tryggja hagnýtingu auðlindanna í almannaþágu til frambúðar og til að girða fyrir hættuna á, að sérdrægir hagsmunahópar seildust í auðlindirnar; (c) þeir stilltu sig um að veita miklu fé úr olíusjóðnum til daglegra þarfa til að halda verðbólgu í skefjum; og (d) þeir fluttu stjórn olíusjóðsins, sem heitir nú eftirlaunasjóður og er geymdur erlendis, frá fjármálaráðuneytinu til sjálfstæðs seðlabanka til að halda stjórnmálamönnum í hæfilegri fjarlægð frá olíufénu.Þegar búhyggindi Norðmanna í olíumálum eru athuguð, vekur það eftirtekt, hversu miklu miður þeim hefur gengið að stjórna fiskveiðum sínum. Ekkert af atriðunum fjórum að ofan á við um fiskveiðistjórnina í Noregi, ekki frekar en hér heima eða sunnar í álfunni. Norðmenn kusu að hefta hagkvæmni í útgerð með ríkisstuðningi og hömlum gegn stórrekstri til að efla atvinnu og tryggja búsetu í Norður-Noregi, öðrum þræði af ótta við Rússa handan við hornið.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun