Friðrik Ragnarsson, þjálfari körfuboltaliðs Grindavíkur, tók upp á því að spila gegn liði sínu í Subway-bikarnum í gær. Friðrik lék með Grindavík B og skoraði 18 stig á lærisveina sína.
Þessi stig dugðu þó skammt þar sem Grindavík vann B-lið sitt örugglega 127-63 og komst í átta liða úrslit. Haukar komust einnig áfram en þeir unnu B-lið KR, Bumbuna, 80-74 á útivelli.
Fjórir leikir verða í sextán liða úrslitunum í kvöld en allir hefjast þeir klukkan 19:15. Skallagrímur tekur á móti Val, ÍBV mætir Stjörnunni í Vestmannaeyjum, Tindastóll heimsækir ÍR í Seljaskóla og Keflavík og Höttur eigast við. Sextán liða úrslitunum lýkur annað kvöld með leik Njarðvíkur og Þórs Akureyri.