Körfubolti

Sigur hjá Pavel og félögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pavel Ermolinskij, leikmaður Huelva.
Pavel Ermolinskij, leikmaður Huelva. Mynd/Róbert

Pavel Ermolinskij skoraði tvö stig þegar lið hans, Huelva, vann góðan sigur í spænsku B-deildinni í körfubolta í kvöld.

Huelva vann lið Melilla, 73-68, eftir að staðan í hálfleik var 39-37, Melilla í vil. Huelva vann hins vegar þriðja leikhlutann með sex stigum og var það nóg til að tryggja liðinu sigur.

Pavel lék í rúmar átján mínútur með Huelva í kvöld og er greinilega allur að koma til eftir erfið meiðsli í haust. Hann skoraði tvö stig í leiknum, tók tvö fráköst og gaf eina stoðsendingu. Hann tók eitt skot innan þriggja stiga línunnar og eitt utan hennar.

Þá skoraði Damon Johnson sjö stig fyrir lið sitt, Alerta Cantabria, sem í kvöld tapaði fyrir Beirasar Rosalia á útivelli, 88-69.

Damon var í byrjunarliðinu hjá Cantabria, lék í rúmar 23 mínútur en hann skoraði öll sjö stigin sín af vítalínunni í kvöld. Hann klikkaði á fjórum skotum utan af velli en aðeins einu vítakasti.

Damon tók eitt frákast og gaf eina stoðsendingu í leiknum.

Huelva er nú komið upp í sjöunda sæti deildarinnar en Cantabria er í því fimmtánda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×