Innlent

Líkfundarmaður ferðaðist á eftir­nafni konu sinnar

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Tomas Malakauskas sem fékk dóm í Líkfundarmálinu svokallaða ferðaðist hingað til lands á eftirnafni konu sinnar samkvæmt heimildum Vísis. Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra segir að greiningardeild embættisins hafi haft grunsemdir um að hann væri kominn hingað til lands og hafið leit að honum á mánudag ásamt sérsveit Ríkislögreglustjóra. Tomas hafi farið huldu höfði vegna endurkomubannsins.

Tomas og annar maður voru svo handteknir á þriðjudag með meint fíkniefni sem talið er að séu 100 grömm af amfetamíni. Við nánari skoðun á skilríkjum þeirra kom í ljós að Tomas var í endurkomubanni.

Í Litháen munu vera í gildi reglur um að maður geti tekið upp fjölskyldunafn eiginkonu sinnar. Nafnið breytist við að skiptast í karlkyn þannig að eftirnafn hjónanna verður ekki eins. Heimildir Vísis herma að pappírarnir sem Tomas ferðaðist á hafi verið á því nafni og þeir hafi líklega verið fengnir með löglegum hætti í Litháen.

Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar lögreglunnar segir að reynt verði að gefa út ákæru á hendur Tomasi eins fljótt og auðið er. Bæði fíkniefnaþátturinn og brot á endurkomubanni varði fangelsisrefsingu. Tomas var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 30. nóvember.

Karl Steinar Valsson yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að þætti fíkniefnadeildarinnar í rannsókn málsins sé lokið.

Tomas afplánaði dóm hér á landi vegna líkfundarmálsins en var vísað úr landi þegar hann var leystur úr haldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×