Fótbolti

Adriano neitar að vera kominn í flöskuna

AFP

Brasilíski framherjinn Adriano segist ekki vera farinn að misnota áfengi á ný þrátt fyrir nokkrar fréttir af því að hann sé farinn að halla sér að flöskunni á ný þar sem hann er við æfingar í heimalandi sínu.

Þessi öflugi framherji Inter á Ítalíu hefur verið sendur heim til Brasilíu til að æfa með Sao Paulo og ganga til sálfræðings í leiðinni, en hann hefur verið skugginn af sjálfum sér síður tvö ár vegna persónulegra vandamála eins og þunglyndis og óhóflegrar áfengisneyslu.

"Það er ekki satt að ég sé farinn að leita í flöskuna á ný til að komast yfir vandamál mín. Allir ganga í gegn um erfiðleika og ég stefni á að komast í gegn um þetta og fá að spila aftur, því það er það sem veitir mér mesta ánægju," sagði framherjinn.

Forráðamenn Inter hafa sýnt hinum hátt launaða framherja mikla þolinmæði og í gær útilokaði forseti félagsins að Adriano verði seldur frá Inter í janúar. "Við seljum hann ekki í janúar. Hann þarf bara tækifæri til að koma sér í lag og ég veitti honum heimild til að fara til Brasilíu til þess. Hann er mjög ánægður með það og ég vona bara að hann falli ekki fyrir freistingunum," sagði Massimo Moratti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×