Körfubolti

Helena lék vel í sigri TCU

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helena er fyrrum leikmaður Hauka.
Helena er fyrrum leikmaður Hauka.

Helena Sverrisdóttir átti góðan leik er háskólalið hennar í Bandaríkjunum, TCU, vann stórsigur á Delaware í gær, 66-36.

Helena skoraði ellefu stig, gaf sex stoðsendingar og tók fjögur fráköst á þeim 22 mínútum sem hún lék í leiknum. Hún varði líka eitt skot og tapaði aldrei boltanum.

Hún hitti úr þremur af sex skotum sínum utan af velli, þar af nýtti hún eina af fjórum þriggja stiga tilraunum sínum. Hún nýtti öll fjögur vítaköstin sín.

Þjálfari liðsins, Jeff Mittie, var ánægður með frammistöðu Helenu að leik loknum.

„Hún er leikstjórnandi hjá íslenska landsliðinu og segir það mikið um fjölhæfni hennar. Í kvöld var hún með sex stoðsendingar en tapaði ekki einum einasta bolta. Hún nýtti vel þá möguleika sem vörnin bauð upp á og var dugleg að finna opin svæði. Hún lék svo sannarlega vel í kvöld.“

Jenna Lohse var stigahæst í leiknum með þrettán stig og eini leikmaðurinn sem skoraði meira en Helena. Hún tók í svipaðan streng og Mittie.

„Mér finnst hún frábær viðbót við liðið okkar. Hún er mjög óeigingjörn í leik sínum. Þegar hún er með opið skot skýtur hún, annars gefur hún boltann. Leikskilningur hennar er góður og gefur hún sig alla í leikinn. Hún er með frábært viðhorf þar að auki.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×