Innlent

Tony Blair ekki í kot vísað

Óli Tynes skrifar
"Blair house."
"Blair house."

Tony og Cherie Blair eru náttúrlega flutt úr Downingstræti 10. En þeim var ekki í kot vísað. Þau eru þegar flutt inn í hús í Lundúnum sem lýst er sem "mini" Downing stræti. Og nú eru þau víst að leita sér að húsi sem getur komið í staðinn fyrir Chequers, sem er helgardvalarstaður breska forsætisráðherrans. Breska útgáfan af Camp David.

Breska blaðið Daily Telegraph segir að þau hafi tvisvar skoðað sveitasetrið Winslow Hall, sem er rétt um 30 kílómetra frá Chequers. Það var teiknað af Sir Christopher Wren, mesta arkitekt Breta á sautjándu öld. Hann teiknaði meðal annars St. Páls dómkirkjuna í Lundúnum.

Húsið stendur á 22 ekrum lands. Það var byggt á árunum 1698-1701 og í það fóru meðal annars 111 risastór eikartré.

Í því eru sjö svefnherbergi og sex baðherbergi, bókasafn, setustofa, borðstofa, tvær sjálfstæðar íbúðir á jarðhæðinni og kaþólksk kapella. Verðið er um 360 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×