Símun Samuelsen skoraði fyrir lið sitt, Notodden, í norsku 1. deildinni í dag. Það dugði þó skammt þar sem liðið tapaði fyrir Hönefoss, 4-1.
Símun lék fyrstu 72 mínúturnar í leiknum en hann fór til félagsins frá Keflavík nú fyrr í sumar.
Félagi hans hjá Keflavík, Baldur Sigurðsson, lék allan leikinn fyrir Bryne sem vann 4-0 stórsigur á Tromsdalen.
Allan Borgvardt, fyrrum leikmaður FH, skoraði fyrsta mark leiksins á 15. mínútur. Hann lék einnig allan leikinn fyrir Bryne.
Hvorugt lið á þó möguleika á því að komast upp um deild. Bryne er í sjötta sæti með 41 stig, 22 stigum á eftir toppliði Molde.
Notodden er í sjöunda sæti með 33 stig.
Molde, lið Marels Baldvinssonar, getur tryggt sér úrvalsdeildarsætið með leggja Haugesund af velli á morgun.