Innlent

Villi ekki rúinn trausti

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, Júlíus Vífill Ingvarsson, gagnrýnir harðlega aðdraganda samruna orkuútrásarrisanna en segir það fjarri sanni að borgarstjóri sé rúinn trausti flokkssystkina sinna. Viðskiptaráðherra segir að tryggja þurfi með lögum að einkaaðilar geti ekki eignast meirihluta í almannaveitum eða auðlindirnar sjálfar.

Þótt sameining Geysis green energy og Reykjavík energy invest hafi verið samþykkt síðla miðvikudags er málið fjarri því til lykta leitt. Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitunnar ætlar að kæra stjórnarfundinn og fá niðurstöðum hans hnekkt fyrir dómi. Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður sagði í hádegisfréttum okkar að lögmæti hins afdrifaríka stjórnarfundar á miðvikudaginn orkaði tvímælis.

Mikið hefur verið rætt um ólgu meðal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og sagt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri sé einangraður innan flokksins. Þessar sögur hafa allar verið í skjóli nafnleyndar. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, blæs á þetta en gagnrýnir aðdragandann og skort á upplýsingum til borgarfulltrúa.

Viðskiptaráðherra segir líka ýmislegt orka tvímælis í aðdraganda málsins en telur samrunann Orkuveitunni til hagsbóta. Hann segir þó mikilvægast nú að skýr lagarammi sé settur sem aðskilji almannaveiturnar frá samkeppnisrekstrinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×