Innlent

Íhugar einkarekin fangelsi

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vill kanna þann möguleika að einkaaðilar byggi og reki nýtt fangelsi.

Björn flutti ávarp á Kvíabryggju í gær í tilefni af því að fangelsið þar hefur verið endurgert og stækkað. Í ávarpinu rifjaði hann upp að nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu hefði verið á döfinni í fjóra áratugi og verði ekki lengur við það unað að menn láti sér nægja að býsnast yfir gamla hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Svo sagði Björn að eðlilegt væri: að skoðað yrði til hlítar, hvort ríkið ætti sjálft að standa að byggingu og rekstri hins nýja fangelsis.

Hann sagði jafnframt: ekki óeðlilegt, að þeirri spurningu sé velt fyrir sér, hvort stofna eigi með samningi til samstarfs við einkaaðila um byggingu og jafnvel rekstur fangelsa.

Þegar fréttastofa hafði samband við ráðuneytið í dag og óskaði eftir viðtali við ráðherra um þessar hugmyndir vísaði hann - eins og oft áður - á heimasíðu sína.

Guðmundur Gíslason forstöðumaður fangelsa á höfuðborgarsvæðinu skrifaði fyrir tveimur árum ítarlega grein um einkarekstur fangelsa út frá reynslu Englendinga af slíkum rekstri. Ríkisendurskoðunin enska taldi fyrir nokkrum árum að einkareksturinn hefði bætt ímynd og ástand í breskum fangelsismálum. Hins vegar var talinn misbrestur á öryggi einkareknu fangelsanna, starfsmannavelta væri meiri og hagræðing hefði falist í að fækka starfsfólki.

Guðmundur kemst í grein sinni að þeirri niðurstöðu að einkarekstur fangelsa, eins og hann er í Bretlandi, samræmist illa íslensku starfsumhverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×