Innlent

Byggingarréttur ætti að fyrnast

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Formaður Torfusamtakanna, Snorri Freyr Hilmarsson, segir óeðlilegt að byggingarréttur sé óafturkræfur. Þá geti hluti gamla bæjarins í Reykjavík glatast. Hann vill að sett verði á fót embætti umboðsmanns íbúa til að gæta hagsmuna þeirra við breytinga á skipulagi.

Eins og við sögðum frá í fréttum okkar í gær eru talsverðar líkur á að borgin þurfi að reiða út á fjórða tug milljóna króna í skaðabætur til eigenda brunalóðarinnar við Austurstræti 22 - hið minnsta. Þetta finnst formanni Torfusamtakanna ekki eðlilegt.

Eins og byggingarleyfi fyrnast á einu ári telur Snorri að byggingarréttur ætti að fyrnast á til dæmis þremur til sex árum - og þá þyrftu menn að fá heimildina endurnýjaða. Annars geti kjörnum fulltrúum reynst örðugt að breyta skipulagi í samræmi við breyttar aðstæður og hugmyndir.

Snorri bendir á að hinn verðmæti byggingarréttur sé tilkominn með birtingu deiliskipulagstillagna í smáauglýsingum dagblaðanna, sem fæstir liggi yfir dag eftir dag.

Þetta er viðleitni til lýðræðislegrar aðkomu fólksins að breytingum á umhverfi þess, að mati Snorra, en reynslan sýni að aðferðin er ekki að virka.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×