Innlent

Skaðabætur vegna brunalóða

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Borgin gæti þurft að reiða fram á fjórða tug milljóna króna í skaðabætur til eigenda brunalóðarinnar að Austurstræti 22 því ekki er gert ráð fyrir að fullnýta byggingarrétt lóðarinnar.

Þegar borgin reyndi að kaupa brunalóðirnar í vor slitnaði upp úr viðræðum því mikið bar í milli - eigendur Austurstrætis 22, vildu til dæmis fá um 40-50% hærra verð fyrir lóðina - og byggingarréttinn - en borgin bauð.

En hvers virði er byggingarréttur? Við Austurstræti 22 má byggja um 1640 fermetra hús, fjórar hæðir og ris. Fréttastofa hafði í dag samband við fasteignasala í Reykjavík sem taldi raunhæft að um 100.000 kr. fengjust fyrir fermetrann af byggingarrétti á þessari lóð.

Byggingarréttur við Lindargötu er nú í sölu og ásett fermetraverð er rétt um 120 þúsund krónur. Miðað við það, færi lóðin við Austurstræti á röskar 200 milljónir. Hver hæð í slíku húsi væri því komin í um 40 milljónir - áður en búið er að taka fyrstu skóflustunguna.

Verðmætið felst m.a. í byggingarrétti sem borgarstjórn samþykkti - fyrir 20 árum. Sigurtillagan í hugmyndasamkeppninni sem kynnt var fyrir skömmu, gerir ráð fyrir um það bil 1300 fermetra húsi. Ef sú tillaga nær fram að ganga verður á fjórða hundrað fermetra byggingarréttur ekki nýttur - og samkvæmt áliti lögmanna hjá borginni hefur þar með stofnast skaðabótaréttur. Miðað við þær tölur sem fréttastofa hefur aflað í dag þýðir það að borgin gæti þurft að reiða út á fjórða tug milljóna í skaðabætur - bara fyrir lóðina við Austurstræti.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×