Innlent

Mótvægisaðgerðirnar brandari

Mótvægisaðgerðir ríkistjórnarinnar eru brandari, segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Árni Johnsen. Hann segir ekki samræmi í aðgerðunum og óeðlilegt að taka Vestfirði fram yfir aðrar sjávarbyggðir.

Árni Johnsen skrifar grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann skefur ekki utan af skoðunum sínum á mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna skerðingar þorskkvóta. Hann segir aðgerðirnar ekki boðlegar og nánast dónaskap og lítilsvirðingu við stærstan hluta landsbyggðarinnar. Hann vill stokka upp á nýtt og láta gera úttekt á vandanum í samráði við sveitarfélög, útvegsmenn og verkafólk - því að, segir Árni, menn verða að gera sér grein fyrir því að málið er það alvarlegasta sem komið hefur upp á Íslandi í manna minnum.

Árni bendir sérstaklega á Grindavík og kveðst langþreyttur á Vestfjarðaþulunni - fleiri þjáist en Vestfirðingar. Því sé óboðlegt að setja 600 milljónir í uppbyggingu þar en jafnvirði tyggigúmmípakka til Grindavíkur í ljósi þess að 6000 tonna niðurskurður á þorskkvóta Grindvíkinga slagi upp í allan þorsk sem Vestfirðingar veiði á ári. Og svo er það hans heimabyggð, Vestmannaeyjar, þar sem heimamenn buðu stjórnvöldum viðræður - en, segir Árni, svarið var tölvupóstur upp á nokkrar millur, brandari miðað við eðli málsins.

Aðgerðirnar ganga í rétta átt, segir Árni, en þarf að vinna þær betur.

 

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×