Þó svo að Fernando Alonso hafi haft betur í slagnum við félaga sinn hjá McLaren, Lewis Hamilton, í Belgíu um helgina segist sá síðarnefndi viss um að hann muni standa uppi sem sigurvegari í Formúlu 1 mótaröðinni.
"Ég hef engar áhyggjur. Fernando hefur staðið sig afar vel en mér finnst að það verði ekki tilfellið í síðustu þremur keppnunum," sagði Hamilton.
Hamilton hefur tveggja stiga forystu á Alonso í stigakeppni ökuþóra. Í keppninni í Belgíu um helgina háðu þeir harða stöðubaráttu á fyrsta hring en eftir það náði Hamilton aldrei að ógna Alonso að ráði.
"Hann er fljótari en ég á sumum brautum en ég fljótari en hann á öðrum. Ég krosslegg fingur að síðustu þrjár brautirnar verði mér hagstæðar. Ég þarf bara að bretta upp ermarnar."
Næsta keppni fer fram í Japan þann 30. september á Fuji-brautinni.