Innlent

Vitlaus og vanhugsuð ákvörðun

Guðjón Helgason skrifar

Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir það vanhugsaða og vitlausa ákvörðun hjá arftaka sínum að kalla heim íslenskan upplýsingafulltrúa í Írak. Utanríkisráðherra sé að slá sig til riddara heimafyrir í stað þess að vinna með bandalagsþjóðum í NATO.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, var gestur í Hádegisviðtalinu á Stöð 2 í gær. Hún sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttir, utanríkisráðherra. Valgerði hafi sýnst þar til þá að samstaða væri að nást um utanríkismál. En þá hafi komið þetta útspil frá utanríkisráðherra sem hún telji vanhugsað og í raun hafi hún verið hneyksluð því þetta sé svo vitlaust.

Þarna séu Íslendingar að starfa innan Atlantshafsbandalagsins og sú starfsemi styðjist við samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðnanna. Á sama tíma bjóðum við okkur fram til setu í ráðinu á næsta ári.

Valgerður segir utanríkisráðherra að slá sig til riddara heimafyrir í stað þess að vinna með bandalagsþjóðum NATO. Gætt sé skammtímahagsmuna heimafyrir.

Siv Friðleifsdóttir, fulltrúi Framsóknarmanna í utanríkismálanefnd Alþingis, hefur óskað eftir fundi í nefndinni vegna málsins og að utanríkisráðherra mæti. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, sagði í samtali við fréttastofu að nefndarmenn færu í vinnuferð til Brussel í miðri viku. Hann vildi þó ekki útiloka að fundan yrði síðar í vikunni en sagði það óákveðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×