Innlent

Kópavogur getur ekki fríað sig ábyrgð

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Mannekla leikskólanna er stærra vandamál en svo að bærinn geti fríað sig ábyrgð á starfsmannahaldi einkarekinna leikskóla, segir Áslaug Daníelsdóttir, leikskólastjóri á Hvarfi. Leikskólafulltrúi Kópavogsbæjar segir bæinn eingöngu bera faglega ábyrgð á slíkum leikskólum.

Eins og við sögðum frá í fréttum okkar fyrir helgi þá neitaði Sesselja Hauksdóttir, leikskólafulltrúi hjá Kópavogsbæ, því að loka hafi þurft deildum á leikskólum Kópavogs - en þá hafði leikskólinn Hvarf í Kópavogi þurft að gera nákvæmlega það. Skólinn er hverfisskóli en einkarekinn á þjónustusamningi við Kópavogsbæ. Sesselja sagði í samtali við fréttastofu í morgun að tveir slíkar leikskólar væru í Kópavogi, Hvarf og Kór, og að bærinn bæri aðeins faglega ábyrgð á þeim. Hún sagði það ekki stefnu hjá bænum að fjölga slíkum leikskólum.

Áslaug leikskólastjóri í Hvarfi segir ráðningar vera að glæðast en enn vanti í fjórar stöður. Sem þýðir að eftir á að taka inn 8-10 börn sem eru búin að fá pláss en jafnframt þarf að hafa eina deild lokaða á dag. Hún telur ekki rétt að bærinn fríi sig ábyrgð á manneklunni þar frekar en annars staðar, Hvarf sé í sömu stöðu og aðrir leikskólar bæjarins og launastefnan bitni á þeim eins og öðrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×