Erlent

McCann-hjónin komin heim

Guðjón Helgason skrifar
Hjónin Kate og Gerry McCann, sem bæði eru með réttarstöðu grunaðra vegna hvarfs dóttur þeirra Madeleine í Portúgal í vor, eru komin heim til Englands. Heim fóru þau með leyfi portúgalskra yfirvalda.

Rúmir fjórir mánuðir eru frá því Madeleine McCann hvarf af hótelherbergi fjölskyldunnar á Praia da Luz í Portúgal. Þegar það gerðist voru hjónin fjarri - á nálægum veitingastað að snæða kvöldverð. Fyrir helgi fengu hjónin réttarstöðu grunaðra í málinu - en þrotlaus leit að Madeleine hefur engan árangur borið.

Kate og Gerry fóru frá Portúgal snemma í morgun og lentu á Englandi á tólfta tímanum. Ferðin heim er farin með fullu samþykki portúgalskra yfirvalda sem hefðu auðveldlega getað hindrað för þeirra.

Talsmaður hjónanna sagði þau ekki á flótta heldur yrðu þau að snúa heim með tveggja ára tvíbura sína. Á flugvellinum sagði Gerry að þau hjónin yrðu nú að jafna sig eftir óhugnalega atburði síðustu daga. Þau væru alsaklaus og ætluðu að halda áfram leitinni að dóttur sinni.

Yfirvöld í Portúgal hafa ekki kært McCann.hjónin. Lögfræðingur þeirra segir líkast til langt þangað til ljóst verði hvað Portúgalar ætli að gera í málinu - opinbera kerfið þar í landi sé málum hlaðið og málarekstur gangi því hægt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×