Innlent

Óskar eftir fund í utanríkismálanefnd

Guðjón Helgason skrifar

Fulltrúi Framsóknarmanna hefur óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd Alþingis vegna heimkvaðningar íslensks upplýsingafulltrúa í Írak. Ákvörðun utanríkisráðherra skjóti skökku við í ljósi framboðs Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Siv Friðleifsdóttir er fulltrúi Framsóknarmanna í nefndinni. Hún hefur farið þess formlega á leit við Bjarna Benediktsson, formanna, að boðað verði til fundar hið fyrsta. Alvarleg staða sé komin upp þegar utanríkisráðherra hafi ákveðið að draga Ísland út úr verkefni sem Íraksstjórn hafi óskað eftir að yrði innt af hendi. Það styðjist við samþykktir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Sérstakt sé að draga okkur úr því meðan sótt sé um sæti þar og ætlunin að taka ábyrgð á þeim vettvangi. Þarna séu allar NATO þjóðir að verki og Íslendingar að draga sig frá þeim.

Siv hefur óskað eftir því að utanríkisráðherra sitji fundinn svo hún geti skýrt ákvörðunina. Hún vonar að hægt verði að funda sem fyrst og meðal annars skoða stöðuna á stjórnarheimilinu vegna þessa máls. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi sagt í fjölmiðlum að hann hefði ekki tekið þessa ákvörðun þegar hann var utanríkisráðherra. Hann reyni að fría sig ábyrgð, segi málið lítið og á hendi fagráðherra. Siv segir málið stærra en svo og mikilvægt að ræða það í utanríkismálanefnd hið fyrsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×