Innlent

Smánar píslarsögu

Guðjón Helgason skrifar

Siguður Líndal lagaprófessor segir að umdeild Símaauglýsing kunni að brjóta gegn lögum. Hún smáni píslarsögu Krists.

Samkvæmt almennum hegningarlögum skal hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags hér á landi sæta sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum. Saksóknara er svo að ákveða hvort mál skuli höfðað.

Sigurður Líndal, lagaprófessor, sagði í samtali við fréttastofu að þetta ákvæði kynni að eiga við umdeilda auglýsingu Símans um þriðju kynslóð farsíma. Í henni er síðasta kvöldmáltíðin og svik Júdasar við Jesú yrkisefni.

Þar taldi hann hægt að túlka auglýsinguna þannig að hún smánaði trúarkenningu - það er píslasöguna. Sigurður segir að þarna takist þó á annars vegar ákvæði hegningarlaga og hins vegar tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Sigurður bendir á að ekki hafi verið kært á grundvelli þessa ákvæðis í háa herrans tíð.

Fyrsti guðlastsdómurinn féll á Íslandi 1925 gegn Brynjólfi Bjarnasyni, Alþingismanni og síðar menntamálaráðherra, vegna ritdóms hans um "Bréf til Láru" eftir Þórberg Þórðarson í Alþýðublaðinu sama ár.

1983, fimmtíu og átt árum síðar var Úlfar Þormóðsson, ritstjóri Spegilsins, dæmdur fyrir guðlast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×