Innlent

Surtsey skoðuð

Guðjón Helgason skrifar

Fulltrúi Alþjóða náttúruverndarsamtakanna segir Surtsey eiga góða möguleika á að komast á Heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hann er nú staddur hér á landi fyrir hönd stofnunarinnar til að meta eyjuna og skoðaði hana í gær.

Þingvelli eru eini staðurinn á Íslandi sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Íslendingar hafa sótt um að Surtsey fari á skránna og verður sú umsókn tekin fyrir á næsta ári.

Chris Wood er fulltrúi Alþjóða náttúruverndarsamtakanna, IUCN, sem leggja mat á umsóknir fyrir Menningarmálastofnunina. Hann skoðaði Surtsey í gær og heimsótti Surtseyjarsýninguna í Þjóðmenningarhúsinu í morgun. Hann sagði umsókn Íslendinga skýra og skilmerkilega og hann væri hér til að sannreyna allt sem kemur fram í henni.

Umhverfisráðuneytið hefur aðstoðað Wood við það verk. Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, segir það mikilvægt fyrir Íslendinga að komast með Surtsey á Heimsminjalistann. Eyjan sé merkt land í þróun og auk þess veki listinn athygli á staðnum enn frekar en nú sé.

Wood segir tillögur nefndarinnar ljósar næsta vor og síðan verði umsókn Íslands formlega tekin fyrir á fundi heimsminjaskrárnefndar UNESCO í júlí á næsta ári. Hann segir Surtsey eiga ágæta möguleika en segist ekki geta tjáð sig um málið umfram það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×