Innlent

Gæti færst að hluta undir borgaralega stjórn

Guðjón Helgason skrifar

Forsætisráðherra segir vel koma til greina að einhver hluti af rekstri íslenska ratsjárstöðvarkerfisins færist undir borgaralega aðila. Íslendingar taka við rekstri þess á miðvikudaginn.

Kostnaður við reksturinn íslensku ratsjárstöðvanna fjögurra er átta hundruð milljónir á næsta ári. Íslensk yfirvöld vilja að lesið verði úr öllum merkjum frá þeim. Merkin komi ýmist frá vélum sem hér fljúga yfir eða frá ratsjárstöðvum til að finna vélar sem fela sig.

Fram hefur komið í fréttum að ekki liggi fyrir með hvaða hætti unnið verði úr upplýsingunum. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að engar breytingar verði á rekstri stöðvanna við yfirtökuna á miðvikudaginn en mál þeirra sé nú til meðferðar hjá utanríkisráðuneytinu.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, viðraði þær hugmyndir í ræðu í lok mars að eftirlit með merkjum verði hjá flugumferðarstjórum og þeim sem manni vakstöðina við Skógarhlíð. Með öllu sé óþarft að halda úti sérstakri vaktstöð.

Forsætisráðherra segir að taka þurfi tillit til þess að veigamikill hluti af rekstrinum tengist starfsemi NATO. Geir segir hins vegar að ef einhverja þætti rekstursins yrði hægt að flytja undir borgaralega stjórn þá yrði að skoða það nú þegar reksturinn komi til Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×