Innlent

Stór hluti ratsjárkerfisins gagnslaus

Óli Tynes skrifar
Lítið gagn er að því að fylgjast með ókunnum flugvélum sem nálgast Ísland.
Lítið gagn er að því að fylgjast með ókunnum flugvélum sem nálgast Ísland.

Íslendingar hafa ekkert gagn af stórum hluta þeirra upplýsinga sem ratsjárkerfið hér á landi skilar. Eins og staðan er í dag nýtist ekkert sá hluti kerfisins sem Bandaríkjamenn notuðu til þess að hafa eftirlit með ferðum ókunnra véla við landið. Því er spursmál hvort Íslendingar hafa eitthvað að gera við að halda þeim hluta kerfisins gangandi. Með ærnum tilkostnaði.

Ratsjárstofnun tekur við stýringu ratsjárkerfisins um miðjan mánuðinn. Ekki hefur þó verið tekin endanleg ákvörðun um hvort haldið verður áfram að reka það óbreytt. Í stórum dráttum skiptist kerfið í tvo hluta. Annarsvegar er það sem notað er til þess að fylgjast með borgaralegu flugi.

Farþegaflugvélar senda frá sér upplýsingar sem koma fram sem númer á ratsjárskjám. Með því er hægt að fylgjast með staðsetningu þeirra, flughæð, hraða og öðrum þáttum. Hinsvegar er svo ratsjárkerfi sem sýnir óboðna gesti sem nálgast landið í lofti. Það er þetta ratsjárkerfi sem Bandaríkjamenn notuðu til þess að ákveða hvort ástæða væri til þess að senda orrustuþotur á loft.

Nú eru engar orrustuþotur á Íslandi og Íslendingar hafa því lítið við þetta kerfi að gera. Þeir hafa ekkert að miðla þessum upplýsingum. Það sýnist því ekki ástæða til þess að halda kerfinu gangandi nema þá í einhverskonar samvinnu við NATO. Ef NATO vill fá þessar upplýsingar og nýta sér þær gæti það verið grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×