Innlent

Bjartsýnn á að bjór komist í búðir

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, Borgar Þór Einarsson, er bjartsýnn á að núverandi ríkisstjórn leyfi sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum - þrátt fyrir að einn ötulasti baráttumaður þess á þingi, Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hafi lýst því yfir að hann muni ekki beita sér í málinu.

Rýmri lög um áfengi eru ekki vinsæl ráðherramál. Tveir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn höfðu sem óbreyttir þingmenn áhuga á að slaka á áfengislöggjöfinni. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, barðist á alþingi fyrir bjór og léttvíni í matvöruverslanir, síðast fyrir fimm mánuðum. Eins og við sögðum frá í fréttum í gær vill hann enn að menn geti keypt vín með steikinni í matvöruverslunum. En hann ætlar ekki að beita sér fyrir því sem ráðherra í ríkisstjórn. Jóhanna Sigurðardóttir, nú félagsmálaráðherra, lagði fyrir fáum árum fram frumvarp þess efnis að ungmenni milli 18 ára og tvítugs mættu kaupa léttvín og bjór - enda mættu þau þá bæði gifta sig og kjósa. Hún hætti raunar við að flytja málið þar sem ekki fékkst stuðningur til að stórefla forvarnarstarf í leiðinni.

Ungir sjálfstæðismenn hafa ekki legið á þeirri skoðun sinni að afnema eigi ríkiseinkonun á áfengissölu.

Borgar bendir á að heilbrigðisráðherra hafi ekki forræði yfir ÁTVR - það hefur fjármálaráðherra - en segist bjartsýnn á að núverandi ríkisstjórn láti af því verða að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×