Innlent

Fasteignir þjóðarinnar minna virði en eignir Kaupþings

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Eignir Kaupþings banka eru nú tæplega þrjátíu prósent meiri en verðmæti allra fasteigna á Íslandi. Metafkoma var á nær öllum sviðum hjá Kaupþingi á fyrri hluta ársins, en sex mánaða uppgjör var kynnt í dag.

Það sperrir enginn eyrun lengur þótt íslensku bankarnir skili góðri afkomu. Stærstur þeirra er Kaupþing sem reið á vaðið í dag og kynnti sex mánaða uppgjör. Hagnaður eftir skatta á fyrri hluta ársins er 46,8 milljarðar króna.

Rekstrartekjurnar voru nærri 96 milljarðar króna og jukust um 44 prósent miðað við sama tíma í fyrra. Rösklega þriðjungur teknanna fæst af starfsemi á Íslandi, eða um 35 og hálfur milljarður, rúmir 27 á Norðurlöndunum og 24 í Bretlandi.

Sérstaklega hækkuðu tekjur bankans af þóknunum, um 55%, mest á Bretlandi og Íslandi. Skýringin mun vera sveiflur í verkefnum.

Vaxtatekjur jukust um 45% - mest á Íslandi, eða 60%. Skýringin á því mun vera að bankinn hefur dregið úr hlutabréfaeign sinni og sett fé inn á reikninga og sömuleiðis hefur útlánum fjölgað.

Ekki fékkst uppgefið í dag hversu stór hluti af tekjunum kemur af viðskiptum við einstaklinga en að sögn forstjórans er um sjötíu prósent af hagnaðinum af fyrirtækja- og verðbréfastarfsemi.

Þá voru heildareignir bankans orðnar í lok júní rúmir 4570 milljarðar króna. Þetta er ekki lítið. Um síðustu áramót var gangverð allra fasteigna á Íslandi metið á 3550 milljarða - rösklega þúsund milljörðum minna en eignir Kaupþings banka. Forstjórinn er að vonum sáttur og segir þetta metafkomu.

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×