Viðskipti erlent

Hlutabréf féllu í Kína

Horft yfir kauphöllina í Sjanghæ í Kína.
Horft yfir kauphöllina í Sjanghæ í Kína. Mynd/AFP

Gengi kínversku SCI-vísitölunnar féll um 5,25 prósent í kauphöllinni í Sjanghæ við lokun viðskipta í Kína í dag. Ástæðan er ótti fjárfesta við að aukinn fjöldi fyrirtækjaskráninga á hlutabréfamarkað og hlutafjáraukningar muni veikja markaðinn.

Vísitalan rauk upp í byrjun árs og tvöfaldaðist í verði frá áramótum er hún rauf 4.000 stiga múrinn fyrir nokkru. Hún hefur hins vegar lækkað nokkuð ört upp á síðkastið vegna aðgerða stjórnvalda til að draga úr bólumyndun á hlutabréfamarkaði, svo sem með snarhækkun stimpilgjalda. Hún situr nú í 3.615,87 stigum.

Greinendur, sem hafa varað við hættumerkjum á kínverska hlutabréfamarkaðnum síðan í maí vegna mikillar eftirspurnar á innanlandsmarkaði, segja gengi hlutabréfa í Kína hafa þegar náð hámarki sínu. Megi vegna þessa ekki gera ráð fyrir miklum hækkunum á næstunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×