Viðskipti erlent

Blackstone kaupir Hilton-hótelkeðjuna

Eitt af fjölmörgum Hilton-hótelanna. Þetta er í San Fransisco í Bandaríkjunum.
Eitt af fjölmörgum Hilton-hótelanna. Þetta er í San Fransisco í Bandaríkjunum. Mynd/AFP

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Blackstone Group, sem skráður var á hlutabréfamarkað vestanhafs fyrir um hálfum mánuði, hefur keypt Hilton-hótelkeðjuna. Kaupverð nemur 26 milljörðum dala, jafnvirði heilla 1.615 milljarða íslenskra króna. Greitt verður fyrir hótelin í reiðufé.

Kaupverð á hlut nemur 47,5 dölum en það er 32 prósentum yfir lokagengi bréfa í keðjunni í gær, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Stjórn Hilton-hótelkeðjunnar hefur samþykkt yfirtökutilboðið og er gert ráð fyrir því að viðskiptunum ljúki í enda árs.

Fjárfestingasjóðurinn hefur reynslu af kaupum á hótelum en hann á nokkur slík fyrir.

Í enda maí var samið um að Hótel Nordica í Reykjavík verði Hilton Hotel. Gert er ráð fyrir að breytingum á hótelinu, sem verða í samræmi við staðal Hilton-hótelanna, verði lokið á haustdögum og mun hótelið eftirleiðis heita Hilton Reykjavík Nordica. Þetta mun hafa verið sérleyfissamningur og mun Icelandair Hótels áfram reka hótelið, en kemst inn í bókunarkerfi Hilton keðjunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×