Innlent

Flugvél Icelandair fyrst

Guðjón Helgason skrifar

Flugvél Icelandair var sú fyrsta sem flaug frá flugvellinum í Glasgow eftir að hann var opnaður í morgun. Vélin fór frá Keflavík á áttunda tímanum í morgun og lenti aftur á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir klukkan tvö í dag.

Arndís Ósk Ólafsdóttir kom með vélinni. Hún sagði frekar mikla óreiðu hafa verið á öllu á vellinum í morgun og löng röð út fyrir flugstöðina. Þeir sem hafi verið með fyrstu vélum hafi fengið að fara framfyrir og það hafi gilt um Icelandair vélina. Hún segir allt hafa verið vel skipulagt og stemmningu fína meðal fólks á vellinum.

Sheila Brown kom einnig með vélinni til Íslands. Hún segir vélina hafa verið þá fyrstu sem hafi verið kallað út í. Allt hafi gengið vel fyrir sig. Ekki voru þó allir sammála því.

Júlíus Helgi Eyjólfsson var farþegi um borð. Hann segir upplýsingar til farþega í gær hafa verið litlar. Hvergi hægt að hringja til að fá upplýsingar um hvort yrði flogið í morgun frá Glasgow og ekkert að græða á vefsíðu félagsins. Þau hafi loks séð það í morgun að vélin hafi farið og því ákveðið að fara á völlinn upp á von og óvon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×